Um sögurnar

Mía, Moli og Maríus – Vandræðasögur er einstaklega falleg og eiguleg barnabók sem er hugsuð fyrir aldurshópinn 3-6 ára. Markmið hennar er að efla tilfinningameðvitund og samkennd.  

Í bókinni eru sagðar 5 sögur þar sem leikskólavinirnir Mía, Moli og Maríus lenda í kunnuglegum ágreiningi. Sögurnar leiða lesendur í gegnum aðstæðurnar á gamansaman hátt, með gagnvirkum lestri.

Allar sögurnar fimm eru byggðar upp með svipuðu móti: Vinirnir Mía, Moli og Maríus lenda í ágreiningi, eftir annars rólega og friðsama byrjun í ósköp kunnuglegum aðstæðum í leikskóla. Á hápunkti árekstranna er sagan stöðvuð og lesendur beðnir um að slást í leikinn með því að svara spurningum um tildrög aðstæðna og líðan sögupersóna. Spurningum er hagað með þeim hætti að sjónarhornfærist frá einni sögupersónu yfir á aðra. Einnig eru spurðar spurningar sem snúa að eigin reynslu barnsins. Að spurningum loknum er sagan dregin í land með farsælum endi.

Megintilgangur spurninganna er þríþættur:

Í fyrsta lagi, að áheyrendur setji sig í spor mismunandi sögupersóna. Þar sem valdar hafa verið aðstæður sem algengt er að komi upp í barnahópum, er hugmyndin sú að börn öðlist færni til að sjá ágreining og klípur frá fleiri sjónarhornum en sínu eigin, sem kann að skerpa félagsfærni og samkennd.

Í öðru lagi skapa spurningarnar tækifæri til samræðna milli barns og fullorðins um eigin reynslu barnsins af svipuðum aðstæðum og geta þannig aðstoðað barnið við að koma orðum að þeim örðugleikum sem verða á vegi þess í samskiptum við aðra.

Í þriðja lagi virkjar spurningaþátturinn lesendur til þátttöku í lestrinum og gefur þeirra áliti, reynslu og innleggi í samræður verðskuldað vægi

Bókinni er ætlað að veita börnum og uppalendum verkfæri til að ræða þær margvíslegu og oft á tíðum flóknu aðstæður og tilfinningar sem upp koma í hinu daglega lífi.