Kynning á höfundum

Bók þessi er fyrsta samstarfsverkefni höfunda og jafnframt frumraun þeirra á sviði barnabókmennta.

Alexandra Gunnlaugsdóttir er kennari og uppeldisfræðingur (Cand.Paed. Psyk) og hefur um árabil starfað sem deildarstjóri í alþjóðlegum leikskóla í Danmörku og unnið að rannsóknum á einelti í grunn- og menntaskólum.

Hugmyndirnar að þeim senum sem lýst er í sögunum eru því sóttar í afar raunverulegar aðstæður sem börn þekkja vel. Sú aðferðafræði sem uppbygging sagnanna byggist á, er að miklu leyti byggð á námsefni sem Alexandra hefur þróað og beitt í starfi og nefnist “Social Situations”. Hún er jafnframt aðaltextahöfundur sagnanna.

Fjóla Ósk Aðalsteinsdóttir er hagfræðingur að mennt og hefur hún sérhæft sig á sviði atferlishagfræði, en þar kviknaði áhugi hennar á hegðun einstaklinga og á tengslum tilfinningagreindar við færni til að leysa úr ágreiningi. Þá hefur hún einnig beitt og reynt fyrir sér með svokallaða sviðsetningu árekstra, sem þessar sögur byggja á, til að auðvelda samræður (dialogue) um hegðun og árekstra eigin barna.

Ragnheiður Jónsdóttir sem myndskreytti sögurnar, stundar nú meistaranám í íslensku við Háskóla Íslands og hefur fengist við myndlist frá unga aldri. Um tíma rak hún verslunina Værð barnavörur við Laugaveg sem seldi barnavörur eftir hana og fleiri íslenska hönnuði. Hún hefur einnig lært myndlist og listfræði, og unnið með börnum svo hún þekkir vel hvers konar myndefni höfðar til barna.